Meðferð mála hjá endurskoðendaráði

Endurskoðendaráð getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði ef ástæða er til að ætla að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi brotið gegn lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 , góðri endurskoðunarvenju, siðareglum endurskoðenda eða öðrum reglum sem taka til starfa endurskoðenda.

Hver sá sem telur á sér brotið af hálfu endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis með aðgerðum eða aðgerðarleysi getur vísað málinu til endurskoðendaráðs, enda hafi hann lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Mál skal lagt fyrir endurskoðendaráð með skriflegu erindi svo fljótt sem verða má en eigi síðar en fjórum árum eftir að atvik átti sér stað.

Endurskoðendaráð tekur ákvörðun um ágreiningsefni sem lúta að störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun, reglum settum á grundvelli þeirra og góðri endurskoðunarvenju.

Endurskoðendaráði er heimilt, ef sérstaklega stendur á, að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu.

Þá getur endurskoðendaráð vísað máli til opinberrar rannsóknar.


Við notum kökur til að auðvelda þér að vafra um vefinn. Nánari upplýsingar. Loka kökum
Þetta vefsvæði byggir á Eplica