Gæðaeftirlit
Samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun er endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skylt að sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
Markmið gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda er að tryggja að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur og endurskoðun, siðareglur endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.
Gæðaeftirlit nær til allra endurskoðenda sem bera ábyrgð á endurskoðunarverkefnum en eftirlitið getur beinst að endurskoðunarfyrirtæki eða einstökum endurskoðendum.
Gæðaeftirlitið felur í sér könnun á gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis og gæðastjórnun endurskoðenda sem tryggir að endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur, siðareglur endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.
Endurskoðendaráð birtir árlega skýrslu um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.