Hlutverk endurskoðendaráðs

Hlutverk endurskoðendaráðs er að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.

Endurskoðendaráð skal sérstaklega fylgjast með:

1. Að endurskoðandi uppfylli skilyrði til löggildingar.

2. Að endurskoðandi uppfylli kröfur um endurmenntun.

3. Að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram.

4. Að til séu siðareglur og endurskoðunarstaðlar.

5. Að endurskoðandi gæti að fyrirmælum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þá tekur endurskoðendaráð við kvörtunum og ábendingum varðandi störf endurskoðenda og úrskurðar um kæru- og ágreiningsefni er lúta að störfum endurskoðenda. Einnig getur ráðið tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði ef það hefur ástæðu til að ætla að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi brotið gegn lögum um endurskoðendur, siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda eða öðrum reglum sem taka til starfa endurskoðenda.Einnig lætur endurskoðendaráð dómstólum, ákæruvaldi og stjórnvöldum í té umsagnir varðandi efni á sviði endurskoðunar.