Innlögn eða niðurfelling réttinda

Endurskoðandi getur óskað eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að leggja inn réttindi sín og falla þá niður réttindi og skyldur hans sem endurskoðanda.

Ef mál endurskoðanda, sem óskar innlagnar réttinda, eru til meðferðar hjá endurskoðendaráði er innlögn réttinda ekki heimil nema með leyfi ráðsins.

Óski endurskoðandi eftir því að fá réttindi sín sem endurskoðandi útgefin að nýju skal ráðuneytið veita honum þau, ef hann fullnægir öllum skilyrðum til að njóta þeirra og sannar að hann hafi uppfyllt endurmenntunarkröfur þriggja ára tímabils.

Ráðherra hefur heimild til að fella niður réttindi endurskoðenda ef endurskoðandi fullnægir ekki skilyrðum til löggildingar eða að tillögu endurskoðendaráðs. Endurskoðendaráð getur lagt til við ráðherra að réttindi endurskoðanda verði felld niður telji ráðið sýnt að endurskoðandi hafi í störfum sínum brotið gegn lögum um endurskoðendur svo að ekki verði við unað. Hafi réttindi endurskoðanda verið felld niður getur viðkomandi einstaklingur óskað eftir endurnýjun þeirra, enda fullnægi hann öllum skilyrðum til löggildingar og hafi staðist að nýju próf til löggildingar.