Löggilding endurskoðenda

Í lögum nr. 79/2008 er endurskoðandi skilgreindur sem sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til starfa við endurskoðun og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga um endurskoðendur.

Skilyrði til þess að hljóta löggildingu

Til þess að hljóta löggildingu sem endurskoðandi þarf einstaklingur að hafa lokið meistaranámi í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennt er af endurskoðendaráði. Þá verður viðkomandi aðili að hafa lokið þriggja ára starfsþjálfun, þar sem hann starfar undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki. Einnig er það skilyrði fyrir veitingu löggildingar að aðili hafi  staðist sérstakt löggildingarpróf.  Önnur skilyrði sem gerð eru fyrir löggildingu í lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur eru að aðili þarf að eiga lögheimili hér á landi, eða vera ríkisborgari aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja, vera lögráða og hafa haft forræði á búi sínu síðastliðin þrjú ár, hafa óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis til Alþingis og hafa starfsábyrgðartryggingu.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitir endurskoðendum réttindi með löggildingu til endurskoðunarstarfa á grundvelli laga nr. 79/2008 um endurskoðendur.

Öllum sem hlotið hafa löggildingu til endurskoðunarstarfa er skylt að vera félagsmenn í Félagi löggiltra endurskoðenda.

Erlend réttindi og menntun

Ef aðili sem hefur réttindi til endurskoðunarstarfa í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum óskar eftir löggildingu til endurskoðunarstarfa hér á landi þarf hann að standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt. Þá getur ráðherra, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, veitt einstaklingi löggildingu til endurskoðunarstarfa ef hann sýnir fram á að hann hafi hafi lokið námi og staðist próf erlendis, sem telst samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í lögum um endurskoðendur. Slíkir aðilar skulu standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt. Loks getur endurskoðendaráð veitt einstaklingum sem lokið hafa öðru háskólanámi með endurskoðun sem kjörsvið undanþágu frá skilyrði um meistaranám í endurskoðun og reikningsskilum, enda telji endurskoðendaráð sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra.

Einkaréttur á notkun orðanna endurskoðandi og endurskoðun

Öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er ekki heimilt að nota orðin endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firmaheiti sínu. Þá er óheimilt að vekja þá trú að aðili sé endurskoðandi ef hann er það ekki, með notkun starfsheitis, firmanafns eða með öðrum misvísandi hætti. Bannið nær þó ekki til starfsheitis innri endurskoðenda í fyrirtækjum enda séu störf innri endurskoðanda hluti af innra stjórnendaeftirliti viðkomandi fyrirtækis.

Skrá yfir endurskoðendur

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birtir opinbera skrá yfir endurskoðendur og má nálgast skránna hér.