Ábyrgð og verkefni endurskoðenda

Gerð er grein fyrir ábyrgð og helstu verkefnum endurskoðenda í lögum um endurskoðendur nr. 79/2008.

Hlutverk endurskoðenda

Endurskoðun hefur verið skilgreind sem sjálfstæð athugun á reikningsskilum, gerð af faglega hæfum og hlutlausum sérfræðingi, í þeim tilgangi að láta í ljós óháð álit á þeim.

Hlutverk endurskoðenda er að staðfesta upplýsingar sem birtast í ársreikningum og felst ábyrgð þeirra í því áliti sem þeir láta í ljós á ársreikningnum á grundvelli endurskoðunarinnar. Við lok endurskoðunar áritar endurskoðandi reikningsskilin með áritun sem inniheldur upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans.

Bæði framkvæmd endurskoðunar og áritun endurskoðanda skulu vera í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit sem teknir hafa verið upp í íslenskan rétt.

Samkvæmt lögum um endurskoðendur ber endurskoðendum að rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf þeirra. Endurskoðandi er opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa og ber að fylgja siðareglum sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda. Byggja siðareglurnar á siðareglum Alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC). Siðareglurnar má nálgast hér.

Ábyrgð endurskoðanda

Ábyrgð endurskoðanda felst í því að gera athugun á reikningsskilum og láta í ljós óháð álit á þeim. Telji endurskoðandi að ársreikningur sé ekki í samræmi við þær reglur sem um gerð hans gilda ber honum að geta um það í áritun sinni á ársreikninginn.

Óhæði endurskoðenda

Í lögum um endurskoðendur er kveðið á um að endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki skuli vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Má endurskoðandi þannig ekki framkvæma endurskoðun ef einhver tengsl eru á milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila. Dæmi um slík tengsl eru atvinnutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en þau sem leiðir af endurskoðuninni. Þá er endurskoðanda óheimilt að taka þátt í ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda þess aðila sem hann endurskoðar.

Ítarleg ákvæði um óhæði endurskoðenda er einnig að finna í siðareglum sem Félag löggiltra endurskoðenda hefur sett og samkvæmt lögum ber endurskoðanda að fylgja ákvæðum siðareglnanna.

Í vinnuskjölum við endurskoðun ber endurskoðanda að skjalfesta allar alvarlegar ógnanir gagnvart óhæði og tilgreina viðeigandi verndarráðstafanir.

Starfstími endurskoðenda

Fjallað er um starfstíma endurskoðenda í 20. gr. laga um endurskoðendur. Þar segir að ef lög eða samþykktir fyrirtækja mæli ekki fyrir um annað haldist starf endurskoðanda þangað til annar endurskoðandi tekur við.  Þó kemur skýrt fram í lögunum að endurskoðandi geti látið af starfi áður en ráðningartíma hans lýkur. Í slíkum tilvikum ber endurskoðanda og eftir atvikum stjórn þess aðila sem í hlut á að tilkynna starfslok endurskoðandans og ástæður þeirra til endurskoðendaráðs.

Ekki er hægt að segja upp samningi um endurskoðun vegna ágreinings um reikningsskilareglur eða endurskoðunaraðferðir.

 Þegar skipt er um endurskoðanda skal endurskoðandinn sem tekur við snúa sér til fráfarandi endurskoðanda sem ber skylda til að upplýsa um ástæðurnar fyrir starfslokum sínum. Jafnframt skal fyrri endurskoðandinn veita hinum nýja endurskoðanda aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta um fyrirtækið sem endurskoðað er.

Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum skal taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að honum var falið verkið. Sama gildir um endurskoðendur þeirra dótturfélaga sem hafa verulega þýðingu innan samstæðunnar. Endurskoðanda sem áritar endurskoðuð reikningsskil einingar tengdrar almannahagsmunum er ekki heimilt að taka við lykilstjórnunarstöðu hjá viðkomandi einingu fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endurskoðun einingarinnar.

Í 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 er að finna sérstakar reglur um starfstíma endurskoðenda fjármálafyrirtækis. Segir í ákvæðinu að endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki fjármálafyrirtækis skuli kjósa til fimm ára á aðalfundi fjármálafyrirtækis. Óheimilt er að kjósa sama endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki fyrr en að fimm árum liðnum frá því að starfstíma lauk. Þrátt fyrir það getur fjármálafyrirtæki vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki frá áður en fimm ára kjörtímabili lýkur að fengnu áliti endurskoðendaráðs. Í ákvæðinu kemur einnig fram að endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki fjármálafyrirtækis sé óheimilt að gegna öðrum störfum fyrir fjármálafyrirtækið. Þá er kveðið á um það að kjósa skuli sama aðila sem endurskoðanda í móður-, systur- og dótturfélagi ef þess er nokkur kostur.

Þóknun endurskoðenda

Samkvæmt lögum um endurskoðendur skal þóknun fyrir endurskoðun við það miðuð að hún geri endurskoðanda kleift að komast að rökstuddri niðurstöðu í samræmi við þær faglegu kröfur sem settar eru fram í lögunum og gilda almennt um störf endurskoðenda.

Óheimilt er að skilyrða eða tengja greiðslu eða fjárhæð þóknunar fyrir endurskoðun öðru en endurskoðuninni.

Gagnsæisskýrslur

Í 29. gr. laga um endurskoðendur er sú skylda lögð á endurskoðendur eininga tengdum almannahagsmunum að birta árlega á vefsetri sínu skýrslu um gagnsæi. Skýrslan skal birt eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok hvers reikningsárs. Í skýrslu um gagnsæi skal a.m.k. gera grein fyrir félagsformi, eignarhaldi og stjórnskipulagi endurskoðunarfyrirtækis, lýsa lagalegu og skipulagslegu fyrirkomulagi samstarfsfyrirtækja endurskoðenda sem endurskoðunarfyrirtæki tilheyrir. Í skýrslunni skal einnig koma fram lýsing á innra gæðaeftirlitskerfi endurskoðunarfyrirtækis og yfirlýsing frá stjórn um skilvirkni þess. Einnig skal upplýst um hvenær síðasta gæðaeftirlit fór fram, upplýsa um endurmenntunarstefnu og óhæðisreglur auk upplýsinga um heildarveltu endurskoðunarfyrirtækis. Loks skal birta skrá yfir einingar tengdar almannahagsmunum sem endurskoðunarfyrirtæki hefur annast lögboðna endurskoðun fyrir á næstliðnu fjárhagsári.


Þagnarskylda

Endurskoðendur, starfsmenn endurskoðenda, eftirlitsaðilar og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu endurskoðenda eða eftirlitsaðila eru bundnir þagnarskyldu um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.